Gegnsæið í lífeyrissjóðum. 14/01/2013
Posted by Jóhann Páll in Greinar.trackback
Gegnsæið í lífeyrissjóðunum
Sú mikla umræða sem verið hefur um lífeyrisréttindi á almennum markaði að undanförnu hefur að verulegu leyti snúist um hve mikið réttindi skuli skert. Flestir virðast gera ráð fyrir skerðingu, en skerðingar á lífeyri eru hvorki eðlilegar né sjálfsagðar og það er ákaflega brýnt að sjóðsfélagar séu meðvitaðir um uppsöfnun, rekstur og ávöxtun lífeyrissjóðanna.
Til að sjóðsfélagar geti aflað sér upplýsinga um lífeyrismálin þá þurfa sjóðirnir í heild og einstaka sjóðir að vilja og leggja metnað sinn í að hafa allar upplýsingar er sjóðinn varða upp á borðinu. Lög sem ekki hefur þótt ástæða til að breyta koma í mörgum atriðum í veg fyrir að sjóðirnir, og Fjármálaeftirlitið, tryggir upplýsingarétt sjóðsfélaganna.
Í nokkur misseri hefur sá sem þetta ritað átt í höggi við Gildi, lífeyrissjóð, Fjármálaeftirlitið og ráðuneyti til að freista þess að geta fengið upplýsingar um lífeyrissjóðinn sem ég greiði í og er minn, ásamt þeim sem greiða til sjóðsins.
Í einu bréfinu til Fjármálaeftirlitsins er mér bent á það góðlátlega að lífeyrissjóðunum sjálfum sé í sjálfsvald sett til dæmis hvort Gildi þurfi að birta upplýsingar um niðurfærslu verðbréfa sem hlýtur að teljast afskaplega mikilvægt til að geta metið stöðu og rekstur sjóðs vilji menn hafa þær upplýsingar tiltækar . Á það er einnig bent að ef gera á breytingar á lögum til að tryggja gegnsæi og eðlilegt upplýsingastreymi þá þarf að breyta lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda frá 1997.
Í tuttugustu og sjöundu greina þeirra laga kemur fram að samþykktir lífeyrissjóðanna skuli við það miðað að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Það einmitt fjármálráðuneytisins að veita starfsleyfi og Fjármálaeftirlitsins að veita umsögn um starfsleyfi.
Rangt gefið.
En hér rekur sig hvað á annað. Í lögum er kveðið á um að upplýsingaskylda við sjóðsfélaga sé háð samþykktum lífeyrissjóðanna. Sem sagt fjármálaráðherra veitir til dæmis Gildi starfsleyfi og leggur skyldur á sjóðsfélaga en sjóðurinn getur sjálfur ákveðið hvernig hann kýs að tryggja þennan upplýsingarétt gagnvart sjóðsfélagnum. Fjármálaeftirlitið fylgist svo með að stjórnirnar fari að lögum og leggur þannig blessun sína yfir pukur og ógegnsæið gagnvart sjóðafélögum. Í þessu sambandi það skal tekið fram að í ágreiningsmálum milli lífeyrissjóðs og sjóðsfélaga eru sérstök ákvæði um gerðardóm. Hann hefur ekki verið skipaður frá því lögin voru sett og aldrei í fjölmörgum bréfum til fjármálaráðuneytis hefur leiðbeiningaskyldu stjórnvaldsins gangvart mér verið sinnt. Umboðsmaður Alþingis þyrfti að eigin frumkvæði að skoða framkvæmd laganna nr.129/1997.
Lögin girða sem sé fyrir að sjóðsfélaginn geti sinnt eftirlit sínu og það er alfarið háð samþykktum sjóðanna hvernig upplýsingar eru veittar. Framkvæmdastjóri og stjórn, t.d. Gildis eru bundnir þagnarskyldu um allt sem viðkemur rekstri og innra eftirliti sjóðsins. Stjórn lífeyrissjóðanna er heimilt að gera breytingar á samþykktu sjóðanna án þess að bera slíkt undir ársfundi þeirra. Stjórn lífeyrissjóðanna hefur sem sé öll völd um það hvernig rekstri og innra eftirliti lífeyrissjóðanna er háttað. Hér bítur vitleysan í skottið á sér, og hinn almenni sjóðsfélagi fær aldrei og mun aldrei að vita um stöðu mála meðan lög og reglur eru með þeim hætti eins og þau eru í dag.
Mínus á mínus ofan
Af hálfu Fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að meðal raunávöxtun Gildis, lífeyrissjóðs, var fyrir skemmstu mínus 5,1% síðustu fimm árin. Þetta kann í framhaldi að hafa þau áhrif á lífeyrissjóðinn Gildi þurfi enn á ný að skerða réttindi sjóðsfélaga því enn er ekki allt komið fram í tapi sjóðsins sl 4 ár . Rekstrarkostnaðurinn hækkar stöðugt hjá Gildi er um það bil 520 milljónir á árinu 2011 og nemur á því ári 4,05% af iðgjöldum sjóðsfélaga það er meira en kostar að reka sambærilega sjóði. Af þessum rekstrarkosnaði renna (17 milljónir til Fjármálaeftirlitsins í eftirlitstörf!). Það er svo einkar athyglisvert að svo skuli búið um hnútana að hjá lífeyrissjóðunum að það þurfi ekki endilega að afhenda sjóðsfélögum fundargerð síðasta ársfundar, eða að bjóða sjóðsfélögum að hlíða á fundargerðir, eða láta bera ársreikninga Gildis upp til samþykktar. Okkur kemur þetta ekki við.
Í okkar heimshluta var grunnstefið í nútíma samfélagi ekki það að hinir fáu ættu að hafa vit fyrir okkur hinum. Grunnstefið ætti að vera að við, almenningur, gætum og hefðum greiða leið að upplýsingum sem myndu upplýsinga okkur og væri þess utan liður í eftirlitinu sem bættir samskipti milli sjóðsfélaga og stjórn lífeyrissjóðs verður að hafa. Þetta kallast lýðræðislegir stjórnarhættir.
Það er svo til marks um lýðræðisást stjórnvalda að engin ríkisstjórn, engum fjármálaráðherra frá 1997 hefur ekki einu sinni dottið í huga að breyta lögunum, sem um sjóðina gilda til að tryggja rétt minn og hafa þannig eftirlit með peningunum sem ég greiði í lífeyrissjóðinn minn. Hvað ætli svona stjórnarfar kallist? Innréttingarnar minna á grafhýsi Leníns.
—
Jóhann Pál Símonarson er sjómaður og áhugamaður um lýðræði
Athugasemdir»
No comments yet — be the first.