jump to navigation

Trillukörlum og útgerðamönnum vísað á dyr 22/01/2010

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

Það ríkir mikill reiði í dag meðal útgerðamanna og trillukarla, sem landa fiski í Reykjavik, stærstu verstöð landsmanna. Nú stendur til að hækka gjaldskrá Faxaflóahafna og taka af gömlum sjómönnum aðstöðu þeirra í verbúðum við höfnina. En þá aðstöðu hafa þeir haft áratugum saman. Aðstaðan í verðbúðunum var hugsuð sem verkfærageymsla útgerðamanna og trillukarla, sem eru að skapa þjóðinni verðmæti.

En hvað skildi nú koma í staðinn í þessum verbúðum sem útgerðamennirnir og trillukarlarnir höfðu áður? List! Myndlistamenn fá aðstöðuna sem útgerðamenn höfðu áður. Háskólinn hefur fengið aðstöðu fyrir nemendur sína sem stunda listsköpun, á efri hæð hússins, sem nú hýsir fiskmarkaðinn í Reykjavík. Ég gat þess áður að Faxaflóahafnir hefðu nýlega hækkað gjaldskrá félagsins og hefur sú ákvörðun fallið í grýttan farveg þessarra manna. Það kemur engum á óvart, þar sem kostnaður útgerðamanna við rekstur skipa sinna hefur aukist gífurlega. Má þar nefna olíukostnað, tryggingargjöld, fæðiskostnað  og viðgerðakostnað m.a. Öll þjónusta hefur hækkað eins og allir vita. Nú er svo komið að nokkrir útgerðamenn eru að kanna þann möguleika að færa sig um set, og landa þar sem gjöld vegna hafnaraðstöðu eru lægri en í Reykjavík.

Þetta er dæmi sem ég nefni er ekki eina dæmið. Nú verður hugsanlega byggð sundlaug í Reykjavíkurhöfn? Ég hélt að það væri yfirdrifið nóg af sundlaugum i hverfum Reykjavíkur. Er það ekki rétt hjá mér? Í Sundahöfn á að fylla upp í höfnina og byggja nýjan viðlegukant flutningaskipa fyrir tugi miljóna króna. Nær væri að endurnýja viðlegukantinn í Sundahöfn fyrir miklu minna fé, því aðstaðan er til staðar.

Eru borgarbúar sáttir að atvinnutækifæri borgarbúa séu á förum annað? Það eru hér um bil 5.000 störf sem gætu með þessum hætti horfið annað og aukið þannig enn meira atvinnuleysið í höfuðborginni. Hafnarfjarðahöfn er á eftir skipafélögunum og bíða nú á hliðarlínunni eftir tækifærum sem myndast við ofangreindar aðstæður. Því þeir sjá vonaneista í nýjum atvinnutækifærum fyrir Hafnarfjörð. Það eru miklar tekjur sem koma inn í sjóði borgarinnar frá útgerðarmönnum og trillukörlum. Fráfall þessarra tekna gæti orðið til þess að skattar hækkuðu hjá borgarbúum og það ættu borgarbúar athuga vel. Við verðum að vinna með fyrirtækjunum að uppbyggingu í Reykjavíkurborg.

Ef við gerum það ekki, munu þessi fyrirtæki flýja Reykjavíkurborg og koma sér fyrir, þar sem hlúð verður að þeim til framtíðar. Ríkistjórnin og borgaryfirvöld verða að vinna saman að uppbyggingu atvinnutækifæra í Reykjavíkurborg. Til þess verður að hafa fólk í borgarstjórn, sem veit hvað sjávarútvegur er og hefur þekkingu á málefnum hafna í Reykjavík. Annað er óhugsandi.

Sundabraut 20/01/2010

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

Undanfarna daga þá hafa sumir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðismanna tekið undir stefnu mína og forgangsmál. Það hlýtur að sýna að ég sé leiðandi afl í að móta stefnu frambjóðanda Sjálfstæðismanna, sem er hið besta mál. Þeir voru með aðrar skoðanir, en breyttu af leið, þegar þeir áttuðu sig á því að fólkið er sammála mér.

Flugvallarmálið  er eitt af stóru málunum. Fólkið í landinu lætur ekki flokka, sem stjórnað hafa landinu og því síður alla borgarstjórnaflokkana, hafa sig að fíflum lengur. Frambjóðendur reyna af fremsta megni að koma sér undan að svara spurningunni um flugvöllinn og segja að árið 2016 eigi hann að vera farinn í burtu. Ef borgarfulltrúar vilja að það sé mark tekið á þeim, þá verða menn að hafa skýra stefnu í þessum málum. Flugvöllurinn á að vera á sínum stað þar til yfir lýkur.

Annað dæmi er hin svokallaða Sundabraut. Mál, sem ég barðist fyrir ásamt Bjarka Júlíussyni, Jóni V. Gíslasyni, Kolbeini Björgvinssyni. Við fjórmenningar börðumst með kjafti og klóm á móti verkefninu og söfnuðum undirskriftum meðal íbúa í Grafarvogi, sem hlut áttu að máli. Þetta var gert með því að ganga hús úr húsi og benda fólki á, að þjóðvegur ætti að koma í gegnum hverfið okkar, alltof nálægt heimilunum. Fólkið tók undir með okkur. Við félagarnir héldum fundi og héldum áfram að berjast. Þegar það fréttist að við værum í sóknarhug þá var hringt frá íbúasamtökunum í Grafarvogi og vildu þeir þá koma inn í málið. Þávorum við félagarnir búnir að ganga í hús kvöld eftir kvöld. En engum hafði  dottið í hug að skoða málið þegar það var í ferli. Hefðum við félagarnir ekki gert athugasemdir, áður enn tíminn rann út, þá hefði Sundabraut verið lögð inn í mitt hverfið okkar.

Þann 19. nóvember var kveðin upp útskurður sem var okkur í óhag. Sigríður Anna Þórðardóttir var umhverfisráðherra á þessum tíma og sagðist ekkert geta beitt sér í málinu. Ég hélt áfram með málið og fékk mér lögmann, sem ég bað um að fengi að sjá gögn um málið. Viti menn, þá birtust fleiri gögn en við höfðum áður fengið aðgang að, en það þótti okkur nokkuð einnkennilegt. Þegar ég og lögmaðurminn fórum yfir málið, þá settum við út á margt í þessum gögnum frá Umhverfisráðuneytinu, sem engin af okkur hafði fengið aðgang að fyrr.

Í sex ár hefur þetta mál beðið. Íbúar í Grafvarvogi vildu alltaf að Sundabraut færi í göng og við félagarnir voru með rök í málinu. Þetta var leið sem allir  íbúar voru hjartanlega sammála um og hefði verðið samþykkt í umhverfismati  strax. En snillingarnir vissu betur og komu með allskonar útfærslur. T.d. að  hafa steypta veggi fyrir framan gluggana hjá fólki, jafnvel upp á 2 metra og sumir veggirnir áttu jafnvel að vera enn hærri.

Ég  mun ekki sætta mig við það, að aðrir taki yfir mínar hugmyndir og hampi þeim sem sínum eigin í prófkjörslagnum, sem nú stendur yfir. Það var ég sem lagði út eigin peninga fyrir lögmannskostnaði í málinu um Sundabrautina en kostnaðurinn nam þúsundum króna. Það skal tekið fram að félagar mínir vildu ekki leggja út í þann kostnað, sem hefði getað orðið miljónir króna. Ég get rakið þetta mál ítarlega ef menn vilja. Þetta er okkar verk sem unnum að því með hag íbúa í Grafvarvogi að leiðarljósi. Ekki þeirra, sem nú vilja súpa rjómann af súpunni.

Höfuðborgarflugvöllur á besta staðnum 15/01/2010

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

Eftir Jóhann Pál Símonarson: „ÞREMENNINGAR, fulltrúar svokallaðrar Betri byggðar, rituðu grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2009 undir fyrirsögninni Borg í Vatnsmýri – allra hagur. Þar segja þeir Einar Eiríksson, Gunnar H.“

ÞREMENNINGAR, fulltrúar svokallaðrar Betri byggðar, rituðu grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2009 undir fyrirsögninni Borg í Vatnsmýri – allra hagur. Þar segja þeir Einar Eiríksson, Gunnar H. Gunnarsson, og arkitektinn Örn Sigurðsson að greinaskrif mín hafi verið harðorð en þeir félagar haldi sig við málefnin en svari ekki persónulegum árásum og dylgjum. Eitt skulu þessir fulltrúar yfirstéttar í Þingholtunum hafa í huga, að Jóhann Páll Símonarson hefur ekki verið með árásir eða dylgjur á hendur fólki. Það hef ég ekki stundað í greinaskrifum mínum, svo það sé á hreinu. Félagarnir ættu frekar að temja sér að setja fram sitt mál með rökum en ekki frösum af þessu tagi. Ég færði fyrir því rök að kostirnir við að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni væru slíkir fyrir Reykjavík og landsbyggðina að óraunhæfar skýjaborgir um stórkostlegar byggingar þar væru bæði ótímabærar og úr öllu samhengi við stöðu mála á Íslandi um langt árabil.

Tómar íbúðir í Reykjavík
Skýjaborgir um uppbyggingu í Vatnsmýrinni byggið þið á að þar megi koma fyrir byggð fyrir 45 þúsund manns. Hvaðan á þetta fólk að koma? Það er ekki til. Margir munu flytja úr landi og flýja aðgerðir Jóhönnu og Steingríms og yfir 4000 íbúðir standa tómar í Reykjavík og bíða nýrra eigenda. Þær eru annað hvort í eigu ríkisins eða erlendra vogunarsjóða og verðlaginu er haldið uppi með handafli til að rústa ekki fjárhag bankanna. Af hverju á að fara að undirbúa nýjar lóðir undir byggingu á sama tíma og við stöndum uppi með þann mikla vanda sem blasir við þeim sem ekki ganga með dökk sólgleraugu? Reykjavíkurborg situr uppi með fullkláraðar lóðir fyrir hundruð milljóna króna. Betri byggðar menn nefna að Reykjavíkurborg gæti selt lóðir fyrir 70 milljarða, hver ætti að vera kaupandinn? Haldið þið að það verði Landsbankinn, Arion banki, eða Íslandsbanki? Það er ekki til fé, hvorki hjá bönkunum né ríkinu, til að framkvæma og síst svona hugmyndir, eða að byggja umferðarmannvirki fyrir tugi milljarða króna. Það er varla hægt að halda úti róluvöllum fyrir blessuð börnin okkar.

Ranghugmyndir
Þetta eru dæmi um ranghugmyndir sem fulltrúar Betri byggðar færa fram í skrifum sínum um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þeim væri nær að kynna sér ástandið og fara góðan bíltúr til dæmis um hafnarhverfið í Hafnafirði. Þar er útsýnið til allra átta og margar tómar íbúðir sem seljast myndu á slikk ef ekki væru bankar, ríki og vogunarsjóðir sem halda verðinu upp með handafli. Kjósendur vilja hafa flugvöllinn á sínum stað. Það er þeirra vilji og Betri byggðar menn ættu að kynna sér málin betur, áður en þeir ráðast fram á ritvöllinn næst. Fólkið í landinu vill hafa flugvöllinn á sínum stað. Þetta sýna þau skrif sem birtust í grein í Morgunblaðinu 31. desember 2009 undir fyrirsögninni: Opið bréf til allra borgarfulltrúa og væntanlegra frambjóðenda.

Þar kemur skýrt fram hve mikilvægur flugvöllurinn er þjóðinni. Þá má gleyma mikilvægi hans fyrir ferðamennskuna og þeim hægðarauka sem hann er á þessum stað fyrir þá sem hingað koma, og nýta sér þann kost að fljúga daglega á milli staða á landinu. Allt skapar þetta tekjur og fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir okkur Reykvíkinga, að ekki sé minnst á þjónustuna sem Reykjavíkurflugvöllur veitir okkur öllum í formi öryggis við sjúkrahús og aðrar þjónustustofnanir höfuðborgarinnar. Í þessu ljósi eru flugvélahljóð sem stöku sinnum angra yfirstéttina í Þingholtunum smotterí.

Fái ég einhverju ráðið eftir næstu kosningar þá mun flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verða á sínum stað um ókomna tíð. Ég sem frambjóðandi í prófkjöri sjálfstæðismanna mun verða með þetta á stefnuskrá minni ásamt fleiru.

Höfundur býður sig fram í 7.-8. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fer fram laugardaginn 23. janúar 2010.

Sóðaskapur í Reykjavík 10/01/2010

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

Virðingarleysi fyrir eigum annara eykst, veggjakrot fer vaxandi, sígarettustubbum hent þar sem menn standa, tómum flöskum hent á víðavangi, tómum áldósum hent þar sem menn standa, Það er eins og það skipti ekki neinu máli fyrir viðkomandi. Það þykir nefnilega flott að henda frá sér rusli. Þetta var kveikjan að frétt fyrir stuttu, þar sem eitt blaðanna birti mynd af þessum sóðaskap íbúa í Reykjavík. Þar voru pappírsbréf og allskonar drasl á víðavangi.

Nú fyrir stuttu fór ég gönguferð niður Laugaveg til að kanna aðstæður. Niðurstaðan af þeirri ferð var í einu orði sagt hörmuleg. Þar voru menn draugfullir, gólandi með bjórflösku í hendi og erlendir ferðamenn horfðu skelkaðir á. Og ekki skánaði það þegar ég kom að næsta húsasundi en þar voru þrír karlmenn,  ég segi karlmenn, sem voru að kasta þvagi á vegginn. Fólki sem átti leið þarna framhjá var forviða yfir þessari uppákomu.

Áfram hélt ég göngu minni niður Laugaveg og viti menn, ekki var aðkoman betri. Þar var fjöldi manns með bjórflösku og áldós í hendi. Ég hugsaði með mér hvað gerðist ef kæmi til áfloga á milli manna? Þegar komið var niður á Lækjatorg var ekki eins mikið af fólki saman komið. Síðan gekk ég út í Tryggvagötu og þar beið fjöldi af fólki fyrir utan þessa skemmtistaði í miðborg Reykjavíkur.

Á þessari leið sá ég ekki einn gangandi lögreglumann að gæta öryggis borgaranna. Það má vel vera að það sé í lagi að haga sér eins og dóni og gera það sem menn vilja. Það var ekki einn keyrandi lögreglubíll á þessu svæði, né að fylgjast með unglingum í Tryggvagötu. Er bara allt í lagi að fólk sé með áldósir eða glerflösku í hendi og hendi rusli á götuna, þ.mt. sígarettustubbum.?

Ég sjálfur hef siglt og ferðast víðsvegar um heiminn. Á þeim stöðum gilda strangar reglur, til dæmis í USA, en þar er bannað að drekka á víðavangi. Ef menn gerast brotlegir þá eru menn teknir og látnir sæta refsingu í formi sektar. Þar gilda stangar umgengnisreglur um götur viðkomandi borgar.

Ég legg það til að allar sektargreiðslur renni beint í rekstur og uppbyggingu Lögreglunar Í Reykjavík en það myndi stuðla að því að umgengni batnaði. Það er alvarlegt mál að ekki sé sýnileg löggæsla í Reykjavíkurborg, hvorki gangandi né keyrandi. Í stórborgum erlendis er sýnileg löggæsla og má þar sjá bæði gangandi og keyrandi löggæslu, sem tryggir öryggi borgaranna.

Þessu ástandi verður að taka á! Það getur ekki verið vilji borgaryfirvalda að hafa þetta ástand til framtíðar? Er hugsanlegt að veitingarstaðir séu of þétt saman? Og of margir á sama stað?

Mér virðist engar reglur gilda um það hver ber ábyrgð á að leyfa reykingarfólki að henda sígarettustubbum á götuna og vera með bjórglas eða flösku í hendi. Þessi mál verður að skoða vandlega strax áður en þetta mun skaða ímynd Reykjavíkurborgar enn frekar.

Varúð Grafarvogur ~ Þjófagengi á ferð! 04/01/2010

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

Íbúar í Grafarvogi og víðsvegar um borgina;  varúð vegna þjófagengis sem nú situr fyrir húsráðendum þegar þeir fara að heiman að morgni til vinnu sinnar. Þetta er allt skipulagt fyrirfram áður en hafist er handa að rupla og ræna á heimilum fólks. Þetta þjófagengi gengur enn lausum hala, og það skiptir ekki máli hvað verður á vegi þeirra. Þeir hafa allar græjur til að brjótast inn á heimili þar sem heimilisfólkið er ekki við látið. Hugsið ykkur innbrotþjófa sem brutust inn í einbýlishús í morgun og létu þar greipar sópa. Þar á meðal skartgripi, tölvur og ýmsan búnað sem þeir höfðu á brott. Það var ekki fyrir enn þjófarnir opnuðu dyr, þar sem uppkomið barn þeirra hjóna spratt upp og þjófurinn hljóp á brott og komst undan.

Hringt var strax í lögregluna sem brást vel við og var ekki lengi á staðinn, biðin var ekki löng um 2 mínútur þegar lögreglumenn komu á staðinn þar sem innbrotið var framið. Blessað barnið var skelkað af hræðslu við svona uppákomu sem skiljanlegt er, og ígrundar nú vel þegar barið er að dýrum hver hugsanlega viðkomandi er. Enda er öll fjölskyldan í gífurlegu sjokki yfir þessum atburði. Þess skal getið að búið er að handtaka 1 meðlim þjófagengis og fleiri liggja undir grun semlLögreglan er að rannsaka.

Íbúar í Reykjavík verið vel á verði ef til dæmis kemur maður og spyr hvort þetta sé ekki númer þetta eða hitt eða í öðrum klæðum til að villa á sér heimildum. Takið strax númer af bifreið ef hún er hugsanleg til staðar eða er að hringsóla í kringum hverfið ykkar. Hringið strax í 112 og látið lögregluna vita tafarlaust um ferðir manna. Skiljið ekki opna glugga, eða opnar hurðir. Mjög gott er að hafa öryggiskerfi frá viðurkenndum aðilum. Það eitt fælir þessa aðila frá.