jump to navigation

Opið bréf til forstjóra FME 06/09/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
trackback

UNDIRRITAÐUR á sparifé til efri ára sem lífeyrissjóðurinn Gildi varðveitir og ávaxtar. Stjórnarmenn og starfsmenn sjóðsins hafa komið því svo fyrir að störf þeirra fyrir sjóðinn hafa gefið þeim milljónir í aðra hönd. Þótt þeir geri vel við sig stjórnendurnir höfum við sjóðsfélagarnir tapað milljörðum á þessum mönnum.

Fjármálaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með gjörðum þeirra sem fengin voru völd og ábyrgð til að fara með eignir okkar sjóðsfélaganna. Sjálfur hef ég ítrekað reynt að afla mér upplýsinga sem varpað gæti ljósi á ráðslag stjórnenda sjóðsins, án árangurs. Því beindi ég nokkrum spurningum til fjármálaeftirlitsins fyrir tveimur mánuðum. Svör hafa engin borist. Því endurtek ég spurningarnar hér:

  1. Hefur FME farið yfir stöðu og kynnt sér ítarlega lífeyrissjóðinn Gildi?
  2. Telur FME að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins uppfylli allar þær kröfur sem til er ætlast í rekstri sjóðsins samkvæmt lögum?
  3. Hver er afstaða FME gagnvart vogunarsjóðum? Uppfyllir sjóðurinn þær reglur, hafa hugsanleg brot verið framin, samkvæmt grein 8.1.7 þar sem segir að sjóðnum sé heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum sem fjármagni sig með lántöku eða skortsölu.
  4. Telur FME að það sé heimilt samkvæmt lögum að neita sjóðsfélaga um skýrslu endurskoðenda? Málið var tekið fyrir á fundi og því neitað alfarið af stjórn sjóðsins).
  5. Samræmist þessi fagafgreiðsla lögum?
  6. Telur FME eðlilegt að skuldabréfasafn sé fært niður um 12 þúsund og þrjúhundruð miljónir króna? Ekkert er getið um það í ársskýrslu hvaða fyrirtæki eiga hér í hlut).

Viðbótarspurningar eru þessar:

Hyggst Fjármálaeftirlitið svara þessum spurningum?

Telur FME að starfsemi Gildis standist lög. nr 161/2002?

Spurningar eru settar fram vegna þess að undirritaður á beinna hagsmuna að gæta vegna rekstrar lífeyrissjóðsins Gildis. Spurningarnar eru sömuleiðis fram settar til að freista þess að tryggja samræmi á milli ábyrgðar stjórnenda og þess sem þeir bera úr býtum í vandasömum störfum sínum.

Ábyrgðarvæðing þeirra sem stjórna er ein leið almennings til að stöðva liðið sem hefur leikið lausum hala undanfarin ár, og er aftur komið á kreik, nú til að selja undan okkur auðlindir, lönd og lóðir sem áður voru torg, og aðgang að sjúkrastofnunum og fagþekkingu sem almenningur hefur greitt fyrir.
Takið eftir: sem almenningur hefur greitt fyrir.

Þetta lið þarf að stöðva strax og þess vegna mun ég ekki gefast upp.

JÓHANN PÁLL SÍMONARSON,
sjómaður og sjóðsfélagi í Gildi.

Birt í Morgunblaðinu 6. september, 2009.

%d bloggurum líkar þetta: