jump to navigation

Viðvörun: Kaupið ekki gjafabréf hjá Icelandair 13/08/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

ÞAÐ ER ekki á hverjum degi sem viðskiptamenn rísa upp og gera athugasemdir við þjónustulund og kaup á gjafabréfum sem Icelandair hefur auglýst að undanförnu. Þetta hefur hugsanlega virkað vel fyrir flugfélagið, en viðskiptamaðurinn stendur eftir niðurlægður af flugfélaginu sem kennir sig við nafnið Icelandair.

Hjónum áskotnuðust tvö gjafabréf út í heim að eigin vali og hugðust nota gjafabréfin, en þegar kom að því að nýta þau voru uppi allt önnur sjónarmið flugfélagsins. Þau höfðu bókað sig í almenn sæti en áttu afgang og vildu nýta sér mismuninn sem þau áttu eftir og hugðust velja sér betri sæti þar sem þjónustan á að vera betri. Enda eru þessi sæti dýrari en almenn sæti, sem flugfélagið hefur auglýst mikið og ætti ekki að koma neinum á óvart, undan því verður ekki ekið.

Gjafabréfið

Það hlýtur að vera móðgun fyrir hjón, sem hlakkað hafa til ferðar út í heim, að fá síðan afneitun frá flugfélaginu, sem undirritaður ætlar að gera að umtalsefni. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar og ákváðum að nýta þessar eftirstöðvar til þess að fá uppfærsluna í betri sæti í fluginu. „Nei það er ekki hægt,“ var svarið, „þetta er einnota gjafabréf!“ Þetta var svarið sem Kolbrún Jónsdóttir fékk þegar hún hugðist nýta sér gjafabréfin tvö sem þeim hjónum áskotnuðust frá góðu fólki. Kolbrún segir farir sínar ekki sléttar í Velvakanda 8. ágúst sl. undir fyrirsögninni Ekki kaupa gjafabréf Icelandair því þeir stela þeim!

Blekking

Undirritaður varð fyrir óskemmtilegri reynslu, sem var af svipuðum toga og Kolbrún Jónsdóttir varð fyrir, að kaupa gjafabréf á vegum Icelandair þar sem ég notaði punktastöðu mína og bætti við peningum með kaupum á nýju gjafabréfi. Þegar kom að því að borga ferðina ætlaði ég að nýta mér þessi tvö gjafabréf sem ég átti. Viti menn, svarið sem ég fékk var skýrt; „að ekki væri hægt að nota nema eitt gjafabréf í einu, það væri regla Icelandair!“ Sem sjálfsagt er samin af stjórnendum flugfélagsins, mér var ekki tjáð þetta reglugerðarverk flugfélagsins þegar ég keypti gjafabréfið! Ég spurði hvort ég gæti ekki fengið endurgreitt, en þá var svarið þvert nei! Ég tjáði sölumanni flugfélagsins að hefði ég vitað um þessar blekkingaraðferðir hefði ég aldrei keypt þetta gjafabréf með þessum skilmálum. Það eru hins vegar ekki góðir viðskiptahættir að nota reglur sem eru til þess fallnar að vekja efasemdir eins og flugfélagið Icelandair notar gegn sínum viðskiptamönnum þegar kaup á gjafabréfum fara fram. Það er í raun ekkert annað en blekking og óprúttnir viðskiptahættir, sem þekkjast ekki nema í bananalýðveldum þar sem viðskiptamenn geta ekki varið hendur sínar.

Hroki stjórnenda

Undirritaður sendi forráðamönnum Icelandair bréf 29. desember 2008 og síðan ítrekun aftur 16. júlí sl. en þrátt fyrir bréfaskriftir hafa engar athugasemdir borist mér. Það hefur ekki verið talið gott að svara ekki erindum viðskiptamanna sem skrifa stjórnendum kvörtunarbréf. Er í raun, hvað sem öðru líður, að taka ekki mark á skoðunum fólks sem hefur átt viðskipti við flugfélagið í áratugi. Það verður að segjast eftir þessi skrif að stjórnendur Icelandair eru uppfullir af hroka og líta niður á viðskiptamenn sína og staðfestir í raun orð Kolbrúnar Jónsdóttur. Það kemur enginn inn þar sem viðskiptamönnum er illa tekið. Slæm umræða meðal fólks getur borist víða um heim.

Birt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 13. ágúst, 2009.