jump to navigation

Áfram Agnes 09/07/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

AGNES Bragadóttir blaðamaður hefur að undanförnu verið gagnrýnd harðlega fyrir að fjalla ófaglega og ómálefnalega um stjórnir lífeyrissjóða. Hefur hún mátt þola ómálefnalega gagnrýni þeirra sem hún kom við kaunin á. Vilhjálmur Egilsson hefur gengið lengst í sinni umfjöllun og sagt að Agnes noti Morgunblaðið sem vettvang fyrir róg um ábyrgðarmenn sjóðanna. Mér finnst andmæli Vilhjálms Egilssonar, fyrrverandi þingmanns, bera vott um frekju í ljósi frammistöðu hans í lífeyrissjóðnum þar sem hann hefur mikil ítök. Ég tel þetta yfirgang í þér sjálfum, Vilhjálmur Egilsson. Minnir mig á gamla Sovét þar sem enginn mátti segja eða hafa skoðanir sem stönguðust á við hinn algilda sannleika. Saka síðan heiðarlegan blaðamann um að nota Morgunblaðið fyrir illkvittni í garð stjórnenda lífeyrissjóða. Þessi orð þín eru þér til skammar. Ef einhver hefur farið fram úr sér, þá ert það þú, Vilhjálmur Egilsson, sem átt að biðja Agnesi Bragadóttur og Morgunblaðið formlega afsökunar á þínum ummælum. Sem erindreki atvinnurekenda reyndir þú að kúga Agnesi Bragadóttur með skrifum þínum.

Hverjir bera ábyrgðina?

Undan því komast menn ekki að framkvæmdastjóri, framkvæmdastjóri eignastýringar, formaður stjórnar og stjórnarmenn bera ábyrgðina á stærsta tapi í sögu lífeyrissjóðsins Gildis sem tapaði nær 60 þúsund miljónum króna samkvæmt tryggingafræðilegu mati.

Á síðasta ársfundi sjóðsins lagði ég fram bókun á þá leið að ég lýsti ábyrgð á tapi sjóðsins á hendur sjóðstjórninni og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Gildis. Ég sagði líka að við sjóðfélagar áskildum okkur þann rétt að hefja málsókn á hendur stjórn sjóðsins vegna þess tjóns sem við höfum orðið fyrir vegna slappleika stjórnar við reksturs sjóðsins sem er algjört ábyrðarleysi, svo mikið er tapið. Þetta eru okkar eignir, framlag manna til þess eins að hafa það betra þegar menn ljúka sínum vinnudegi. Jafnframt óskaði ég að þetta yrði fært til bókar á ársfundi sjóðsins 21. apríl 2009.

Ég undirritaður lagði þetta fram. Öllum sem eiga hlut að máli er kunnugt um þessa bókun. Þess vegna hvet ég alla sjóðfélaga til að hefja málsókn á hendur lífeyrissjóðnum Gildi. Þess skal getið að ég sendi erindi 19. apríl 2009 til Fjármálaeftirlitsins en því hefur ekki verið svarað enn. Undirritaður hafði samband við lögmann FME. Svar hans var í 2007-stíl: Við afgreiðum hér ekkert eftir pöntunum. Þar leggja menn langa lykkju á leið sína til að þurfa ekki að læra af mistökum sínum. Stofnunin hefur eftirlit með lífeyrissjóðnum Gildi.

Ég hef sjálfur sem sjóðfélagi skrifað framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Gildis bréf til þess eins að fá skýrslu endurskoðenda. Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar nýlega. Svarið sem ég fékk var mjög skýrt, þvert nei. Ég fæ ekki skýrslu endurskoðenda.

Hvað er verið að fela fyrir sjóðfélögum? Er það virkilega satt að sjóðfélögum sem vilja fá upplýsingar sé synjað um sjálfsagðar upplýsingar? Ég tel það rétt og skylt að láta sjóðfélögum allar upplýsingar í té sem koma frá endurskoðanda. Ástæða er til að nefna dæmi sem ekki koma fram í ársskýrslu. Ekkert er getið um innlent skuldabréfasafn í ársskýrslu Gildis. Safn sem hefur verið fært niður um 12 þúsund og þrjú hundruð milljónir króna hjá fyrirtækjum eins og Baugi, FL Group, Stoðum, Landic Properties, áður Stoðir, Exista, Kögun, Nýsi, Eglu.

Af hverju er ekkert getið um í ársskýrslu hverjir eru skuldarar í skuldabréfasafni lífeyrissjóðsins Gildis? Ekkert getið um hverjir hinir raunverulegu skuldarar eru? Af hverju liggur þetta ekki fyrir allra augum? Hvað er verið að fela? Hverja er verið að vernda?

Drottnunarvald

Það er von að sjóðfélagar spyrji af hverju framkvæmdastjóri skuli hafa rúma 21 milljón króna í árslaun og sama hefur framkvæmdastjóri eignastýringar, rúma 21 miljón í laun á ári. Síðan komum við að erindreka atvinnurekenda, formanni verkalýðsfélags sem gæti ekki fyrir sitt litla líf samþykkt hækkun til launþega nýlega og til þeirra sem ekki geta varið hendur sínar. Það fannst þeim í lagi sameiginlega. Hinsvegar gátu þessir umræddu bræður þegið hvor um sig hátt í 1,5 milljónir króna fyrir fundasetu í vinnutímanum. Þessir tveir bræður höfðu samanlagt nærri 3 milljónir króna í laun á ári fyrir stjórnarsetu árið 2008. Það er allt í lagi að skerða ekkjur og eftirlaunaþega um 10% sem er loddaraskapur fyrir fólk sem í hlut á. Ekkjunni og eftirlaunaþegum hefði þótt gott að hafa rúmar 800 þúsund krónur á ári fyrir fundasetu í lífeyrissjóði í vinnutímanum á ársgrundvelli. Þessi laun höfðu fulltrúar atvinnurekenda í stjórn sjóðsins árið 2008. Er nokkur hissa á því að sjóðfélagar vilji algjöra hreinsun í stjórn lífeyrissjóðsins Gildis? Ykkar hlutur verður ekki betri þótt þið kastið skít í Agnesi Bragadóttur.

Birt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 9. júlí, 2009.