jump to navigation

Ofurlaunamennirnir 17/06/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

ÞAÐ hefur ekki vantað athugasemdir frá fulltrúum atvinnurekenda og framkvæmdastjóra landsamtaka lífeyrissjóða að undanförnu vegna skrifa Agnesar Bragadóttur, Bjarna Ólafssonar, Grétars Júníusar Guðmundssonar, Þóris Karls Jónassonar og undirritaðs, sem hafa gert alvarlegar athugasemdir við rekstur lífeyrissjóðs Gildis og ekki veitir af.

Þessi skrif hafa kallað fram varnir atvinnurekenda. Sumir af þessum fulltrúum eru með væl eins og Agnes Bragadóttir benti réttilega á nýverið, síðan hæla þessir sömu menn því hve sjóðirnir hafa verið vel reknir, með þátttöku Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingar. Það er ekki hægt að hæla sér af að hafa tapað nær 60 þúsund milljónum króna árið 2008 með því að fjárfesta í áhættusömum rekstri, það kallast lélegir stjórnendur, koma síðan og skerða sjóðsfélaga um 10% og hugsanlega bíður 10% skerðing í viðbót við dyrnar. Nýjasta dæmið er Exista þar sem lífeyrissjóðurinn Gildi mun tapa þúsundum milljóna króna til viðbótar, en stjórnarmenn munu reyna að fá skuldabréf inn í eignasafnið til að laga eignarstöðu lífeyrissjóðsins.

Hugsanlega er þetta eignasafn allt verðlaust og það eitt mun ekki koma sjóðsfélögum til góða þegar þúsundir milljóna króna tapast á röngum fjárfestingum einu sinni enn. Stjórnendur eru ekki einu sinni ábyrgir fyrir sínum gjörðum að tapa þúsundum miljóna króna sem eru hluti af lífeyrisgreiðslum sem hugsanlega hefði verið hægt að greiða viðbótarlífeyri til sjóðfélaga sem lokið hafa sínu ævistarfi með sæmd.

Viðhalda svínaríinu

Það eru samtök atvinnulífsins og ASÍ sem halda sjóðfélögum í lífeyrissjóðnum Gildi í heljargreipum þar sem sjóðfélaginn er valdalaus. Lífeyrissjóður eins og Gildi er ekkert annað en sukksjóður að mínum dómi þar sem atvinnurekendur, framkvæmdastjóri, forstöðumaður eignastýringar, fulltrúar launþega og fulltrúar atvinnurekenda gera það sem þeim þóknast og fá til sín félaga úr fámennum klíkum atvinnurekenda og launþega til að styðja sitt mál því þeir hafa eingöngu atkvæðisrétt á fundum sjóðsins. Hinn almenni sjóðfélagi hefur ekkert um þetta að segja. Sama gildir ef almennur sjóðfélagi vill taka þátt í kosningum um mál sem eru á dagskrá, þá gilda sömu lögmál. Því miður, þar sem þeir hafa völdin en ekki sjóðsfélaginn, sem þó greiðir eign sína inn í sjóðinn. ASÍ sem á að vera forystuafl launþegahreyfingar hefur algerlega brugðist í þessu máli, þetta er í dag kallað fulltrúar lýðræðisins. Þessum stjórnarháttum verður að breyta, að sjóðfélagar kjósi sína fulltrúa sjálfir á ársfundi sjóðsins.

Rán

Nú eru uppi hugmyndir um að stjórnvöld ætli að seilast í lífeyrissjóði landsmanna og knýja þá til að kaupa skuldabréf í fyrirtækjum eins og Landsvirkjun sem er hugsanlega gjaldþrota vegna offjárfestingar. Síðan ætla atvinnurekendur með stuðningi ASÍ að halda áfram að seilast í þessa sjóði okkar með því að selja erlendar eignir lífeyrissjóðsins á brunaútsölu og láta síðan sjóðsfélaga taka skellinn vegna lækkandi verðs á verðbréfum, sem síðan á að styrkja gjaldeyrissjóð Seðlabanka Íslands. Eru stjórnendur lífeyrissjóðsins hreinlega klikkaðir, þegar menn ætla gangast undir eignaupptöku með tilstuðlan afturhaldsflokkanna sem nú eru við stjórnvölinn og eru að vaða í sparifé landsmanna. Það vakir ekkert annað fyrir stjórnvöldum en að taka eignir okkar eignarnámi. Við sjóðfélagar verðum að bregðast við þessum aðgerðum, það verður ekki gert nema að við stöndum saman og krefjumst þess að ríkisstjórnin, atvinnurekendur og ASÍ láti okkar sparifé í friði, það er nefnilega nóg komið af því hvernig hefur farið fyrir eignum okkar í lífeyrissjóðnum Gildi.

Það sem skiptir máli

Burtu með atvinnurekendur, burtu með framkvæmdastjóra, burtu með forstöðumann eignastýringar, burtu með fulltrúa launþegahreyfingar úr sjóðnum og burtu með ASÍ. Þessir fulltrúar sem hér eru nefndir hafa sukkað nóg, þeir hafa ekki einu sinni haft vit á því að laga reglur um framreikning lífeyrisgreiðsla til sjóðfélaga sem er til háborinnar skammar. Við sjóðfélagar krefjumst að þið farið frá völdum og við sjóðfélagar tökum við og skipum okkur stjórn með lýðræðislegum hætti. Við sjóðfélagar munum ekki líða þetta óréttlæti lengur.

Birt í Morgunblaðinu 17. júní, 2009.