jump to navigation

Sendill Samfylkingar treður sér fram 23/05/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
trackback

15. MAÍ 2009 ritar Sigurjón Gunnarsson stutta grein í Mbl. sem heitir Afturhvarf til fortíðar. Þar fjallar Sigurjón um að öldungaráðið í Sjálfstæðisflokknum hafi troðið rækilega blautri tusku upp í túlann á þeim Bjarna Benediktssyni, Þorgerði Katrínu, og Illuga Gunnarssyni varðandi að ganga í ESB og taka upp evru fyrir Ísland.

Því er til að svara að landsfundur sjálfstæðismanna sem var haldinn 26.-29. mars 2009 undir kjörorðinu Göngum hreint til verks var sammála um að breyta upphaflegum markmiðum sínum og taka þess í stað upp mikilvægari umræðu um stöðu fyrirtækjanna í landinu og fólkið sjálft sem er að blæða út. Sjálfstæðismenn töldu þessi mál mikilvægari til að bjarga þjóðinni, en umræða um ESB-mál eða upptaka evru.

Sigurjón, þér til fróðleiks. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út 2 bækur sem heita Endurreisn atvinnulífsins sem fjallar um uppgjör, umfjöllun, álit, hugmyndir og tillögur vegna stöðu og framtíðar íslensks atvinnulífs, og síðari bókin heitir Skýrsla Evrópunefndar sem lögð var fram á 38. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 26.-29. mars 2009. Síðan er þriðja bókin eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu og fjallar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Sigurjón, enn og aftur bendi ég þér á rök, þú átt að kynna þér þessar bækur áður en þú ræðst fram á ritvöllinn með sleggjudóma og kjafthátt um fólk og málefni sem þú hefur ekki hugmynd um. Sjálfstæðisflokkurinn og fyrrverandi dómsmálaráðherra hafa unnið að þessum málum sem snúa að atvinnulífinu, þjóðinni og varðandi ESB-mál mjög vandlega. Enda hafa hafa tugir flokksfélaga komið að málinu með sín álitaefni á fundum sem hafa verið haldnir. Þess vegna, Sigurjón, getur þú ekki talað um stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins. Rök sjálfstæðismanna eru mjög vandlega unnin, enda hefur enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi unnið að jafn mikilvægu máli fyrir alla þjóðina og Sjálfstæðisflokkurinn.

Sigurjón, þú ættir að fara til Samfylkingarinnar og spyrja hana hvort flokkurinn þinn hafi unnið 3 bækur sem eru rök í málefnum þjóðarinnar sem ríður á að takast á við. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert með því að vinna sína heimavinnu, en þú talar um hann sem stefnulausan flokk. Þvílíkt bull.

Síðan ert þú með hótanir og beinir þínum tilmælum til Bjarna, Þorgerðar og Illuga að standa vörð um stóru orðin og hreinsa til í flokknum. Sjálfstæðismenn eru ekkert að flæma fólk burtu, það umræðuefni hefur ekki komið til tals, frekar að sjálfstæðismenn standi allir saman. Að lokum, Sigurjón: ég skil ekki þessi ónot þín í garð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og kjafthátt í orðavali sem ég held að þú ættir ekki að nota. Þessi málatilbúnaður þinn er þér til minnkunar.

Birt í Morgunblaðinu laugardaginn 23. maí, 2009

%d bloggurum líkar þetta: