jump to navigation

Endalok lífeyriskerfisins framundan? 30/05/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

MIKLAR umræður hafa verið um lífeyrissjóðakerfið að undanförnu og það mikla tap sem sjóðir hafa tapað á sl. ári. Dæmi er lífeyrissjóðurinn Gildi sem tapaði nær 60 þúsund milljónum króna samkvæmt tryggingarfræðilegri úttekt.

Sjóðfélagi valdalaus

Þeir sem ráða för eru fulltrúar atvinnurekenda og fulltrúar launþega sem hafa ákvörðunarvaldið. Þetta er fámennur hópur manna, skipaður 80 fulltrúum atvinnurekenda og 80 fulltrúum úr launþegahreyfingunni sem fer með ábyrgð á lífeyrissjóðnum Gildi. Hinn almenni sjóðfélagi hefur ekkert um mál sjóðsins að segja, og byggir þetta á gömlu samkomulagi ASÍ og atvinnurekenda á sínum tíma. Þetta ákvæði kom inn í viðræður ASÍ og atvinnurekenda sem gert var í kjaraviðræðum og hefur reglum enn ekki verið breytt svo neinu nemi þrátt fyrir gífurlega óánægju sjóðfélaga með stöðu mála.

Dauðadómur kerfisins?

Ef þessum reglum verður ekki breytt í þeim viðræðum sem nú standa yfir á þann veg að atvinnurekendur fari út úr þessum sjóðum og valdið fært alfarið til sjóðfélaga er vá fyrir dyrum. Spurningin sem menn hljóta að þurfa að svara er þessi: Ætla karphúsþrælarnir að kveða upp dauðadóm yfir lífeyriskerfinu og þar með að gera að engu þá glæsilegustu sigra sem verkalýðsleiðtogar fortíðarinnar unnu, verkalýðsleiðtogar sem flestir eru nú gengnir? Fulltrúar verkalýðsfélaga sem hafa tapað 300 milljörðum af lífeyristekjum fátæks fólks hljóta að vilja gera lífeyrissjóðina gagnsæja og umfram allt lýðræðislegri.

Það gengur ekki upp að fulltrúar launþega og atvinnurekenda séu að samþykkja og skammta sér laun upp á 21 milljón króna á ári til dæmis handa framkvæmdastjóra sjóðs, sama gildir um forstöðumann eignastýringar sem hefur ekki minna en 21 miljón í laun á ári.

Stórfellt tap

Að greiða tveimur aðilum 42 miljónir króna í laun á ári er hrein klikkun. Hafa ber í huga að stjórnarmenn voru fljótir að skerða eign sjóðfélaga um 10%, þeirra sem lokið hafa sínu farsæla ævistarfi með sæmd. Á sama tíma hafði formaður stjórnar 1.474 þúsund króna laun í vinnutímanum sínum, það er svipað og skúringakonan hefur í laun á ársgrundvelli. Ekki sér fyrir endann á þessum skerðingum því meira tap mun koma í ljós síðar, m.a. vegna þess að eignasafn lífeyrissjóðsins Gildis er nú næstum allt horfið. Ég vil minna á að skuldabréfasafn Bakkavarar Group sem nýlega var í fréttum er hugsanlega allt ónýtt, ásamt fleiri bréfum í fyrirtækjum sem standa halloka.

Ofurlaunamennirnir töpuðu okkar fé

Því á öll stjórn Lífeyrissjóðsins Gildis, framkvæmdastjóri, forstöðumaður eignastýringar, allir þessir aðilar eiga að segja af sér strax og hafa manndóm til að gera það. Það gengur ekki upp að mínu áliti að Fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa gripið inn í þennan rekstur lífeyrissjóðsins og annarra sjóða fyrr vegna gríðarlegs tap. Ég tel það glæfralegt að stunda viðskipti í áhættusömum rekstri og hæla sér síðan af að vera valinn besti lífeyrissjóður í landinu og nota til þess fé sem komið er beint úr vasa sjóðfélaga með beinhörðum peningum. Það getur ekki þurft menn á ofurlaunum til að tapa 60 þúsund milljónum króna!

Ég hafði sjálfur samband við Fjármálaeftirlitið og bað þá að koma á umræddan ársfund til þess eins að fylgjast með hvað væri sagt og hvernig menn rökstyddu tap eigna sjóðfélaga. Því miður var svarið svona: Við vinnum ekki svona eða eftir pöntunum. Það skal upplýst að skýrsla ársfundar lífeyrissjóðsins Gildis hafði ekki borist til Fjármálaeftirlitsins og þeir höfðu ekki kynnt sér ársskýrsluna sama dag eða áður en þessi ársfundur var haldinn.

Bréfsnef er dauður

Það sama gildir um spurningu sem ég fór fram á að svarað yrði eftir umræddan fund og sendi til framkvæmdastjóra sjóðsins. Þar óskaði ég eftir skýrslu endurskoðenda. Svarið var þvert nei. Svar framkvæmdastjóra var á þá leið að skýrslan væri eingöngu ætluð stjórn lífeyrissjóðsins. Og ég sem hélt að Bréfsnef væri látinn fyrir mörgum árum.

Hvað er verið að fela þegar framkvæmdastjóri neitar að veita sjóðfélaga upplýsingar sem óskar þess? Nú er spurningin hvort endurskoðandi hafi gert Fjármálaeftirlitinu grein fyrir að lög og reglugerðir hafi hugsanlega verið brotin? Er það virkilega þannig að mér er neitað um þessar upplýsingar vegna hugsanlegra brota sem stjórn, framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignastýringar eru hugsanlega riðnir við? Hér skal ekkert fullyrt, en leyndin er undarleg. Eins vil ég minna á Fjármálaeftirlitið sem hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða og á að hafa aðgang að öllum gögnum og upplýsingum lífeyrissjóða og ber að framfylgja samkvæmt lögum um lífeyrissjóði nr. 129 23. desember 1997.

Karphúsþrælar

Burtu með atvinnurekendur, framkvæmdastjóra, forstöðumann eignastýringar og fulltrúa launþegahreyfingar í sjóðnum og ASÍ sem heldur meirihluta sjóðfélaga í heljargreipum. Það þarf ekki menn með milljón á mánuði til að lækka við okkur launin né heldur menn á tíföldum verkamannalaunum til að tapa fyrir okkur sparifénu. Þetta ættu karphúsþrælar að hafa hugfast nú og í næstu framtíð.

Birt í Morgunblaðinu 30. maí, 2009.

Sendill Samfylkingar treður sér fram 23/05/2009

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

15. MAÍ 2009 ritar Sigurjón Gunnarsson stutta grein í Mbl. sem heitir Afturhvarf til fortíðar. Þar fjallar Sigurjón um að öldungaráðið í Sjálfstæðisflokknum hafi troðið rækilega blautri tusku upp í túlann á þeim Bjarna Benediktssyni, Þorgerði Katrínu, og Illuga Gunnarssyni varðandi að ganga í ESB og taka upp evru fyrir Ísland.

Því er til að svara að landsfundur sjálfstæðismanna sem var haldinn 26.-29. mars 2009 undir kjörorðinu Göngum hreint til verks var sammála um að breyta upphaflegum markmiðum sínum og taka þess í stað upp mikilvægari umræðu um stöðu fyrirtækjanna í landinu og fólkið sjálft sem er að blæða út. Sjálfstæðismenn töldu þessi mál mikilvægari til að bjarga þjóðinni, en umræða um ESB-mál eða upptaka evru.

Sigurjón, þér til fróðleiks. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út 2 bækur sem heita Endurreisn atvinnulífsins sem fjallar um uppgjör, umfjöllun, álit, hugmyndir og tillögur vegna stöðu og framtíðar íslensks atvinnulífs, og síðari bókin heitir Skýrsla Evrópunefndar sem lögð var fram á 38. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 26.-29. mars 2009. Síðan er þriðja bókin eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu og fjallar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Sigurjón, enn og aftur bendi ég þér á rök, þú átt að kynna þér þessar bækur áður en þú ræðst fram á ritvöllinn með sleggjudóma og kjafthátt um fólk og málefni sem þú hefur ekki hugmynd um. Sjálfstæðisflokkurinn og fyrrverandi dómsmálaráðherra hafa unnið að þessum málum sem snúa að atvinnulífinu, þjóðinni og varðandi ESB-mál mjög vandlega. Enda hafa hafa tugir flokksfélaga komið að málinu með sín álitaefni á fundum sem hafa verið haldnir. Þess vegna, Sigurjón, getur þú ekki talað um stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins. Rök sjálfstæðismanna eru mjög vandlega unnin, enda hefur enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi unnið að jafn mikilvægu máli fyrir alla þjóðina og Sjálfstæðisflokkurinn.

Sigurjón, þú ættir að fara til Samfylkingarinnar og spyrja hana hvort flokkurinn þinn hafi unnið 3 bækur sem eru rök í málefnum þjóðarinnar sem ríður á að takast á við. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert með því að vinna sína heimavinnu, en þú talar um hann sem stefnulausan flokk. Þvílíkt bull.

Síðan ert þú með hótanir og beinir þínum tilmælum til Bjarna, Þorgerðar og Illuga að standa vörð um stóru orðin og hreinsa til í flokknum. Sjálfstæðismenn eru ekkert að flæma fólk burtu, það umræðuefni hefur ekki komið til tals, frekar að sjálfstæðismenn standi allir saman. Að lokum, Sigurjón: ég skil ekki þessi ónot þín í garð forystumanna Sjálfstæðisflokksins og kjafthátt í orðavali sem ég held að þú ættir ekki að nota. Þessi málatilbúnaður þinn er þér til minnkunar.

Birt í Morgunblaðinu laugardaginn 23. maí, 2009