jump to navigation

Mannúð, mildi og stéttarsátt 27/10/2006

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

SKYLT er skeggið hökunni, segir í málshættinum. Það er eins með skeggið og hökuna og slagorðin stétt með stétt og mannúð og mildi. Hvoru tveggja er samofið sögu og hugmyndafræði okkar ágæta flokks. Í slagorðunum felst skuldbinding okkar gagnvart þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, þeim hafa ekki aðstæður til að vera sinnar eigin gæfu smiðir.

Þeim þurfum við að rétta hjálparhönd af því saga okkar og flokksmenning kennir okkur að við eigum að bera virðingu fyrir þessum hugsjónum. Við eigum hins vegar ekki að hjálpa þeim sem geta hjálpað sér sjálfir. Sú hjálp, sá skerfur, er oft tekinn frá þeim sem sannarlega þurfa á hjálpinni að halda. Þetta gildir gagnvart ákveðnum öldruðum og þetta gildir gagnvart ákveðnum öryrkjum hvað svo sem hver segir. Þessi hópar eru efnahagslega jafn misjafnir og aðrir hópar samfélagsins en það eru líka til hópar innan um sem hafa það verulega skítt. Við eigum að einbeita okkur að þeim til að gera vel við þá. Þetta rökstyð ég með því að ekkert þjóðfélag getur gengið út frá því að geta tryggt öllum sama rétt, til dæmis frá Tryggingastofnun.

Við Íslendingar eigum að taka höndum saman og styðja þá sem standa höllum fæti. Grettistak í þeirra þágu þarf ekki að auka útgjöld úr almannatryggingunum sem dæmi. Við flytjum fjármagn til innan kerfisins frá efnuðum eignamönnum til þeirra sem ekkert eiga. Menn þurfa að hafa kjark og þora að taka á málinu strax – vilji er allt sem þarf, sagði ástsæll leiðtogi okkar og það á svo sannarlega við í þessu máli. Það er sögulegt skylda okkar sjálfstæðismanna að fara þessa leið, því okkar er ábyrgðin að hér verði ekki slitinn sundur friðurinn um mannúð og mildi eða stétt með stétt.

Birt í Morgunblaðinu föstudaginn 27. október, 2006.

Færri skrifborð – minni skýrslugerð 26/10/2006

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

ALÞINGISMENN eru kjörnir af Reykvíkingum. Þeir eiga að leggja sérstakt kapp á að gera Reykjavík öruggari borg. Hér ætti fólk að geta ferðast um borgina sína áhyggjulaust á hvaða tíma sólahringsins sem er. Þetta er útgangspunktur minn til að ná því markmiði, það þarf aðeins að finna hina tæknilegu útfærslu til að svo verði.

Einu sinni voru settir upp bráðskemmtilegir pappalögregluþjónar ökumönnum til viðvörunar á Reykjanesbrautinni. Sú aðferð skilaði takmörkuðum árangri og nýttist fremur í þágu Spaugstofunnar en umferðaröryggis. Tvöföldun brautarinnar skilar sér aftur á móti eins og stefnt var að, því það er tæknilega rétt aðgerð til að leysa vandamálið.

Eins er það með öryggið í henni Reykjavík. Til að draga úr glæpum og slysum í borginni þarf að draga úr inniveru lögreglumanna og efla þá til dáða utandyra. Það er gert með því að fækka skrifborðum og skýrslugerð og efla lögregluna í nauðsynlegu starfi úti á meðal borgaranna. Það er eitt af áherslumálum mínum í stjórnmálum.

Birt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. október, 2006.