„Þetta eru rosaleg skipulagsmistök“ 24/11/2004
Posted by Jóhann Páll in Greinar.comments closed
ÍBÚAR í Hamrahverfi í Grafarvogi mótmæla harðlega viðbrögðum skipulagsyfirvalda og umhverfisráðuneytis við mótmælum þeirra vegna Sundabrautar, en íbúarnir eru ósáttir við að brautin liggi við hlið íbúðahverfisins.
„Fólk er ekki sátt við svona valdníðslu,“ segir Jóhann Páll Símonarson, sem segir að þrátt fyrir að íbúar hafi skrifað bréf til Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki svarað erindinu á nokkurn hátt. Umhverfisráðuneytið hafi aftur svarað því einu að málið hafi verið á borði Skipulagsstofnunar.
„Þetta eru rosaleg skipulagsmistök, að vera að setja þjóðveginn inn í skipulagt íbúðahverfi,“ segir Jóhann, og segir hann íbúana gera alvarlegar athugasemdir við hávaða og mengun sem muni fylgja brautinni. Hávaðann megi að einhverju leyti forðast með hljóðmönum en mengunin verði eftir.
Jóhann segir íbúana í raun ósátta við allar þrjár leiðirnar sem nú eru til umræðu, og vill ræða fjórða möguleikann á legu brautarinnar sem einhverjir íbúar í þessu hverfi eru hlynntir. Þá myndi brautin liggja frá Sæbraut um Viðey og þaðan á Geldinganes, annað hvort um göng eða brýr. Þannig þarf ekki að raska rótgrónum íbúðahverfum og mætti að auki byggja upp Viðey, segir Jóhann. Þannig myndi einnig sparast stórfé sem annars færi í uppkaup lóða ef svokölluð eyjaleið verður fyrir valinu.
Hópur íbúa hittist í gærkvöldi til að ræða hvert framhaldið yrði, og sagði Jóhann líklegt að boðað yrði til íbúafundar í hverfinu til að skoðanir hins almenna íbúa fengju að heyrast. Þannig segir hann að þeir sem hyggist berjast fyrir sjónarmðum íbúanna geti haft það á hreinu hver þau sjónarmið eru og allir hafi lýðræðislegan möguleika á að koma sínum skoðunum á málinu að.
Birt í Morgunblaðinu 24. nóvember, 2004
Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum 19/11/2004
Posted by Jóhann Páll in Greinar.comments closed
Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum 19. nóvember 2004