jump to navigation

Ekki benda á mig 13/03/2002

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

ÞEGAR forstjóri Landhelgisgæslunnar kom fram í sjónvarpi á dögunum var hann spurður um tæknileg atriði en kom sér hjá að svara vegna þess að hann væri ekki tæknimaður. Þá lá fyrir vönduð úttekt Morgunblaðsins þar sem tímasetningar vegna hörmulegs slyss voru raktar og dagskrárgerðarmönnum vorkunn að ganga ekki harðar fram í spurningum sínum. Nú hefur Morgunblaðið lagt fram staðreyndir málsins og því þarf að fá svarað nokkrum lykilspurningum vegna Bjarma-slyssins meðal annars frá Landhelgisgæslunni.

Fram kemur hjá skipstjóra Týs í Morgunblaðinu að þegar ratsjártölva varðskipsins hafi verið skoðuð kl. 12.46 hafi komið í ljós depill, sem að öllum líkindum hafi verið Bjarmi, en Bjarmi hverfur svo af ratsjá varðskipsins kl. 11.06 samkvæmt upplýsingum sem fram koma í Morgunblaðinu 26. febrúar sl., eða 9 mínútum eftir að varðskipið heyrir veikt neyðarkall.

Hér hlýtur maður að spyrja: Var ekki settur maður við radarinn strax og neyðarkallið heyrðist? Það þarf einnig að svara því á hvað radarinn var stilltur. Það þarf einnig að svara því af hverju varðskipið sigldi í austur þegar það hafði heyrt neyðarkall og séð depil sem hvarf í vestri. Alveg á sama hátt og það þarf að upplýsa um allt sem gerðist hjá tilkynningaskyldunni. Það má líka spyrja af hverju varðskipsmenn kíktu ekki fyrr á ratsjártölvuna sem gaf til kynna að endurvarp skips (Bjarmi) hvarf.

Þessum spurningum þarf að svara til þess að hugsanleg mistök endurtaki sig ekki og til þess að menn læri af reynslu sinni. Það má líka velta því fyrir sér þegar svona hörmulegt slys veður hvort það var til bóta fyrir öryggismál sjómanna að flytja rannsóknanefnd sjóslysa í Stykkishólm. Það má líka velta því fyrir sér hvort lagabreyting, þar sem ákvæði um fortakslaus sjópróf voru afnumin, hafi verið til bóta. Það má líka velta fyrir sér hvort rannsóknanefnd sjóslysa ætti ekki að sjá sóma sinn í að halda áfram útgáfu skýrslu sjóslysanefndar sem kom síðast út 1997, eða ráðherrann að tryggja útgáfu ritsins.

Viðbrögð margra sem sinna öryggis- og björgunarhlutverki á sjó hafa að mínum dómi einkennst af því sem fram kemur í frasanum hans Bubba – ekki benda á mig. Viðbrögðin sjálf ættu að verða samgönguráðherranum næg ástæða til að skipa sérstaka óháða rannsóknanefnd sem skilaði opinberri skýrslu um málið, en í henni þyrftu að vera fagmenn.

Birt í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. mars, 2002.