jump to navigation

Að renna í hundaskít 05/12/2001

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

MORGUNBLAÐIÐ birti fyrir nokkru athyglisverða frétt af íslenskri konu sem rann í hundaskít og datt við Kirkjubæ í Færeyjum. Konan leitaði réttar síns samkvæmt færeyskum lögum, vann mál og fékk þokkalegar bætur vegna miska sem hún varð fyrir. Þetta var fyrir tveimur árum.

Fyrir rúmum fimm árum lenti undirritaður í alvarlegu slysi í Færeyjum, eins og konan sem rann í hundaskítnum. Munurinn var sá að ég féll 12 til 15 metra niður í steinsteypt bryggjugólf í Þórshöfn eftir að gámaspreddari gaf sig. Ekki geri ég lítið úr því að renna í hundaskít, eða afleiðingum þess, en er þó þeirrar skoðunar að afleiðingar 12 til 15 metra falls séu mun alvarlegri til langs og skemmri tíma litið en það sem gerðist á hinum fornfræga Kirkjubæ. Þetta er þó ekki eini munurinn á tilvikunum tveim.

Siðferði frændþjóða

Færeyskt siðferði og færeyskar reglur virðast vernda og tryggja rétt konunnar með allt öðrum hætti og greinilegri en þær íslensku reglur og það íslenska siðferði lögmanna, atvinnurekenda og tryggingafyrirtækja sem hefur áhrif á afgreiðslu míns máls.

Sú afgreiðsla þvælist ennþá fram og aftur milli lækna, lögmannsstofu, tryggingafyrirtækis og skipafélags og öll skrefin sem stigin eru virðast hafa það eina markmið að teygja og toga málið fram og aftur. Einn kafli var runninn undan rifjum fyrirbæris sem kallaði sig í desember 1999 Counsel Office, Established 1907, og ritaði skipafélaginu leiðbeiningar sínar á enskri tungu. Ráðin sem hið virðulega Counsel Office, Established 1907, veitti skipafélaginu gengu út á að gera tilraun til að grafa undan rétti mínum og hafna bótakröfu minni.

Umhugsunarefni

Konan sem rann í hundaskítnum í Færeyjum átti sinn sjálfsagða rétt og gat sótt hann án þess að þurfa að óttast að af hlytist kostnaður og áralöng óþægindi. Það er hins vegar til umhugsunar fyrir okkur sjómenn, eða almennt íslenskt verkafólk, hversu langt fyrirtæki eins og Eimskipafélagið seilist til að koma í veg fyrir að þeir sem í hlut eiga nái rétti sínum eftir alvarleg slys án áralangra lögfræðideilna. Vel má vera að þeir stjórnendur skipafélagsins sem bera ábyrgð á millljarðatapi síðustu missera hafi lagt línur í þessu máli og fremur kosið að nota aðstöðu skipafélagsins til að fjárfesta í nýja hagkerfinu sem nú er að mestu gjaldþrota en afgreiða sjálfsögð bótamál starfsmanns sem hefur unnið hjá félaginu í áratugi. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hluthafana að félagið skuli fremur kjósa að eyða milljónum í lögfræðikostnað í málarekstur gegn starfsmanni sínum en viðurkenna bótakröfur hans.

Hún rann í hundaskít konan við Kirkjubæ og fékk þessar sjálfsögðu bætur sínar. Eftir rúmlega fimm ára streð velti ég því fyrir mér hvort framvinda málsins hefði orðið önnur og hvort aðrir siðferðis- og réttlætismælikvarðar hefðu verið notaðir ef ég hefði runnið í hundaskít á hafnarbakkanum í Þórshöfn sem færeyska landstjórnin ber ábyrgð á. Í ljósi atburðanna á Kirkjubæ tel ég líklegt að ég væri löngu búinn að ná rétti mínum án dýru lögmannanna. Ég hallast að því að færeysk lög og færeyskar hefðir hefðu tryggt rétt minn betur en íslenskar, eða kannski er það þannig þegar Ísland á í hlut að menn þurfi að renna í bananahýði til að ná eyrum þeirra sem ráða.

Birt í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. desember, 2001.