jump to navigation

Valdbeiting gegn sjómönnum 22/11/2000

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

„Af hverju þarf það að koma í minn hlut, að reka hugsanlega mál gegn mínu góða félagi?“

FYRIR rúmlega fjórum árum lenti ég í mjög alvarlegu slysi í Þórshöfn í Færeyjum. Ég var þá háseti á Brúarfossi sem Eimskipafélag Íslands gerði þá út. Meiðsli mín voru svo alvarleg að ég var í fyrstu frá vinnu í heilt ár. Þá fór ég aftur út á sjó en hef margsinnis þurft á læknisaðstoð að halda þau þrjú ár sem liðin eru og farið í margar aðgerðir á þessu tímabili.

Það eru fjögur ár liðin frá því ég fékk mér lögmann til að halda fram rétti mínum gagnvart Eimskipafélagi Íslands. Ég hef farið í örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins svo sem lög segja fyrir um og matið var bæði margþætt, ítarlegt og yfirgripsmikið. Margsinnis hef ég verið kallaður til Tryggingastofnunar þegar ég hef verið í fríi frá siglingum, margsinnis hef ég verið mældur og kortlagður frá toppi til táar af tryggingalækni. Sjálfum finnst mér þeir hjá Tryggingastofnun hafa unnið starf sitt af kostgæfni.

… en þá kemur að skipafélaginu

Já, þá kemur að skipafélaginu, Eimskipafélagi Íslands. Ég ætla að taka það strax fram til að forðast misskilning að á vinnustaðnum á ég mína góðu félaga og vini og í raun og veru þykir mér afskaplega vænt um Eimskip enda væri ég ekki búinn að vera hjá félaginu í rétt 30 ár nema svo væri. En skipafélagið er víst meira en flutningafyrirtæki með glæsilega sögu og marga góða starfsmenn. Það er ekki bara óskirnar einar. Það hef ég mátt reyna.

Það eru einhverjir menn í vinnu hjá Eimskipafélagi Íslands sem neita að viðurkenna bótarétt minn og niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins. Þegar ég byrjaði á Bakkafossi, 9. október 1970, eftir að hafa reynt lengi að komast til sjós hjá Eimskip voru epli til dæmis flutt til landsins sem lausavara. Og auðvitað kom það fyrir að kassar skemmdust og opnuðust í flutningum þegar veður voru vond. Þá sá maður stundum hvað skemmdu eplin gátu eyðilagt mikið út frá sér. Í viðskiptum mínum við starfsmenn á vegum Eimskips þessi síðustu ár hefur mér oft verið hugsað til skemmdu jólaeplanna frá haustinu 1970.

Kostnaðurinn

Afstaða skipafélagsins gagnvart mér hefur kostað mig hundruð þúsunda í útlagðan kostnað. Hún hefur kostað mig mikil óþægindi og svekkelsi því auðvitað verður maður svekktur þegar komið er í bakið á manni með þessum hætti.

Skipafélagið gerir oft vel við starfsmenn sína. Á þess vegum eru haldin námskeið fyrir starfsmenn sem eiga að bæta vellíðan þeirra og þar fyrir utan eru haldin rándýr svokölluð gæðastjórnunarnámskeið fyrir toppana og miðstjórnendur. Allt skilar þetta skipafélaginu vafalaust góðum starfsmönnum en ég spyr mig oft um það sjálfur af hverju það þarf að koma í minn hlut að reka hugsanlega mál gegn mínu góða félagi.

Frá upphafi hefur legið fyrir að orsakir slyssins verða ekki raktar til aðgæsluleysis af minni hálfu. Það gerist mjög oft að menn á vegum skipafélagsins reyna að tryggja hagsmuni þess eftir slys á mönnum með því að beita fyrir sig frasanum: „Eins og slysinu er lýst í fyrirliggjandi gögnum virðist um dæmigerða óhappatilviljun að ræða og/eða óaðgæslu slasaðs sjálfs við för hans niður af gámnum.“ Þessum frasa er beitt til að klína á mannskapinn ábyrgð á slysum sem oftar en ekki má rekja til búnaðarins sjálfs.

Dómstólaleiðin – valdbeiting

Þegar ég hóf störf var Óttar Möller forstjóri og ef ég man rétt var eftirmaður hans þá fulltrúi í fjármálaráðuneytinu. Hann er nú floginn á brott en mér er það mjög til efs að Hörður hafi vitað um það hvað mýsnar aðhöfðust á meðan hann var forstjóri. Ég trúi ekki að hann beri ábyrgð á því að félagið komi svona fram við starfsmann sem hefur þjónað félaginu af trúmennsku í rúma þrjá áratugi.

Ég trúi því heldur ekki að það hafi verið æðsta stjórn félagsins, eða stærstu hluthafarnir, sem tóku ákvörðun um það í kompaníi við sjóslysanefnd Sturlu Böðvarssonar, að neita öðrum sjómanni sem slasaðist mjög alvarlega ári eftir að ég slasaðist um rannsóknargögn í máli hans. Sjá sjómaður þurfti að draga Eimskipafélagið alla leið upp í Hæstarétt til að fá aðang að gögnunum um sig.

Þeir sem vinna á vegum félagsins hafa dregið þann mann á sömu asnaeyrunum og mig í þrjú ár. Ég segist ekki trúa því að yfirmenn fyrirtækisins beri ábyrgð á svona háttalagi, eða hvað?

Hitt er alveg ljós að formlega er það Eimskipafélag Íslands sem beitir mig, eða okkur, valdi. Valdbeitingin bitnar auðvitað á þeim sem verða fyrir henni en þess utan finnst mér það verst að þurfa að standa í áralöngum málarekstri gegn sögufrægu, góðu félagi sem er samofið sjálfstæði þjóðarinnar. Ætli uppskriftina að þessu samskiptamynstri sem ég hef orðið fyrir sé ef til vill að finna í lesefninu sem fylgir gæðastjórnunarnámskeiðunum sem félagið hefur keypt fyrir mjög margar milljónir á undanförnum árum

Birt í Morgunblaðinu 22. nóvember, 2000.