jump to navigation

Opið bréf til dómsmálaráðherra 03/10/1999

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
comments closed

FRÚ Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra.

Mesta böl íslenska samtímans er fíkniefnainnflutningur og neysla. Þess vegna fagna ég í hvert sinn sem lögreglan upprætir dópsalana sem halda þessum óþverra að börnum okkar. Ég fagna sérstaklega að lögregla skuli hafa upprætt dópsalaklíku á dögunum. Ég held við séum sammála um það ráðherrann, ég og sjómenn á fraktskipum.

Í Morgunblaðinu sl. laugardag er viðtal við mann sem titlaður er yfirmaður efnahagsbrotadeildar hjá ríkislögreglustjóra. Nafnið er Jón H. Snorrason. Þar er hann að útskýra breytingar sem orðið hafa á fíkniefnamarkaðnum og hann talar sérstaklega um farmenn í þessu sambandi. Mér vitanlega komu þeir hvergi við sögu í stóra fíkniefnamálinu, enda var flutt inn í innsigluðum gámum, sem farmönnum kemur ekkert við nema að lesta þá og landa í blóðspreng.

Yfirmaður efnahagsbrotadeildar segir síðan eftir að hafa talað um ótiltekna menn sem hafa komið sér fyrir innan skipafélaganna, hvað svo sem það þýðir: „Þá er árangursríkast fyrir fíkniefnainnflytjendur að koma sér í samband við þá skipverja sem eru afbrotamenn á þessu sviði og bjóða þeim samstarf.“

Yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar gengur lengra og segir í beinu framhaldi: „Það er á vitorði margra hvaða skipverjar smygla áfengi þannig að tiltölulega auðvelt er fyrir fíkniefnainnflytjendur að setja sig í samband við þá því þeir eru ekki margir á hverju skipi.“

Undirritaður hefur verið á fraktskipum í 30 ár og veit ekki hvaða skipverja yfirmaður efnahagsbrotadeildar á við, en úr því það er á vitorði margra hverjir það eru þá hlýtur hann að geta upplýst það.

Ég fer fram á að dómsmálaráðherra sjái til þess að nöfn þessara manna séu birt svo farmenn þurfi ekki almennt að sitja undir dylgjum undirmanns hennar.

Ég skora líka á dómsmálaráðherra að spyrja yfirmann efnahagsbrotadeildarinnar, sem ætti að vita um nöfn áfengissmyglara sem nú má búast við að fari að flytja inn dópið, af hverju tollur og lögregla hafa ekki handtekið þetta lið úr því að „þeir eru ekki margir á hverju skipi“ og „á vitorði margra hvaða skipverjar“ stunda smygl?

Ef nöfnin verða ekki birt og ef yfirmaður efnahagsbrotadeildar biður okkur farmenn ekki afsökunar á orðum sínum af sjálfsdáðum, þá skorar undirritaður á þig, frú Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, að knýja fram afsökunarbeiðni, en víkja manninum frá ella. Það er alvörumál að sitja undir svona yfirlýsingum.

Menn geta ekki kastað svona rugli fram sem hittir fyrir heila stétt manna án þess að svara fyrir það hvað þeir meina í smáatriðum. Hvorki gagnvart mér og starfsfélögum mínum, né til dæmis gagnvart fyrirtækinu, sem ég starfa hjá og mér þykir vænt um, eða gagnvart þeim sem halda þar um stjórnvölinn. Hugsaðu um það, frú dómsmálaráðherra, næst þegar þú hittir for- og framkvæmdastjórana. Ég treysti því að þú sjáir alvöruna í málinu. Stjórnendur fyrirtækja geta varla setið undir því þegjandi að tiltekinn hópur manna sem starfar hjá þeim skuli vera vændur um að vera glæpamenn, að vísu „ekki margir á hverju skipi“, en „á vitorði margra hvaða skipverjar“.

Birt í Morgunblaðinu sunnudaginn 3. október, 1999.