jump to navigation

Skipin verði mönnuð Íslendingum 17/05/1999

Posted by Jóhann Páll in Greinar.
trackback

Flutningar fyrir Varnarliðið:  Skipin verði mönnuð Íslendingum
STJÓRN Sjómannafélags Reykjavíkur krefst þess að íslenskum skipafélögum sem sinna flutningum fyrir Varnarliðið séu sett þau skilyrði að skipin séu skráð á Íslandi og áhafnirnar mannaðar Íslendingum enda geri bandarísk stjórnvöld þær kröfur til bandarískra skipafélaga sem sinni þeim hluta flutninganna sem Bandaríkjamönnum sé ætlaður samkvæmt samningum.

Jónas Garðarson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, segir að jafnt gildi um Eimskipafélag Íslands og Atlantsskip að þau hafi verið með erlend leiguskip í flutningunum og útlenda sjómenn.

Í opnu bréfi til Stefáns Kjærnested, framkvæmdastjóra Atlantsskipa, sem birtist í Morgunblaðinu, spyr Jóhann Páll Símonarson sjómaður meðal annars hvort rétt sé að hásetar á skipum Atlantsskipa hafi 21 þúsund krónur í laun, hvort tveir íslenskir skipstjórar hafi verið látnir fara til að lækka fraktkostnaðinn, hvort flotbúningar séu um borð í skipunum og hversu margir sjómannanna séu í Sjómannafélagi Reykjavíkur.

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélagsins, segir að rétt sé að launin séu um 21 þúsund krónur og að engir sjómannanna séu íslenskir og enginn þeirra í Sjómannafélaginu. Hann segir að flotbúningar séu í skipinu en þeir uppfylli ekki íslenskar öryggiskröfur. Hann segir það jafnframt rétt að skipstjórarnir tveir hafi verið látnir fara.

„Launin um borð eru samkvæmt reglum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins, ITF,“ segir Stefán Kjærnested hjá Atlantsskipum. „Að sjálfsögðu eru öll öryggisatriði í samræmi við þær reglur sem eru gerðar.“

Stefán segir að íslensku skipstjórarnir tveir hafi ekki verið látnir fara, þeim hafi verið boðið að starfa áfram á skipinu en þeir hafi ekki viljað það.

Halldór Steinþórsson, sem er annar skipstjóranna, vildi ekki tjá sig um málið.

Birt í Morgunblaðinu föstudaginn 7. maí, 1999.

%d bloggurum líkar þetta: